149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

ófrjósemisaðgerðir.

435. mál
[16:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir yfirferðina yfir nefndarálit þessa viðkvæma frumvarps sem hér er verið að fjalla um, um ófrjósemisaðgerðir. Ég kem hingað upp í rauninni vegna minna fyrri starfa sem lögmaður. Þá varð ég nokkrum sinnum, örsjaldan, beðin um að vera lögráðamaður einstaklings sem sökum skerðingar var í rauninni ekki — af mannúðarástæðum — látinn ganga í gegnum þungun.

Mig langaði aðeins að spyrja hv. þingmann hvort sú umræða hafi ekki átt sér stað í nefndinni varðandi það þegar sótt hefur verið sérstaklega um ófrjósemisaðgerð á einstaklingum sem búa við miklar þroskaskerðingar, hvernig umræðan hafi verið í nefndinni varðandi þá einstaklinga og heimild fyrir ófrjósemisaðgerðum á þessum einstaklingum.