149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

ófrjósemisaðgerðir.

435. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er rétt að auðvitað kom það fram í umræðum í nefndinni að sem betur fer eru aðgerðir sem þessar orðnar afar sjaldgæfar. Það er a.m.k. mín tilfinning, og ég held annarra nefndarmanna, að þær ákvarðanir sem teknar eru um slíkar aðgerðir séu vel undirbúnar, teknar af yfirvegun og það sé sannarlega engin lausung eða lausatök á ákvarðanatökunni. Þær heyra sem betur fer núorðið til algerra undantekninga og við erum, eins og ég nefndi hér áðan, komin þar í — við skulum segja vegferð okkar í réttindamálum fatlaðs fólks — að það er ekki lengur þannig sem betur fer að við séum að taka ákvarðanir sérstaklega um viðkvæm mál eins og þessi, án þess að það sé vel undirbúið. Menn ganga ekki lengur að því gruflandi að slíkt er í rauninni ekkert í samræmi við þá mannréttindastaðla sem við viljum búa við sem þjóð.