149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Þær upplýsingar sem við fengum frá þeim sérfræðingum sem komu á fund nefndarinnar voru að þetta væri fjórar til fimm konur á ári, en þetta er væntanlega hvergi skráð. Þetta eru upplýsingar sem við fáum frá þeim aðilum sem vinna með þessum konum og aðstoða þær.

Mér finnst mikilvægt að árétta að í dag hefur kona rétt á því að fara í þungunarrof alveg upp að 22. viku. Breytingin sem á sér stað núna er sú að það er konan sjálf sem ákveður það en ekki læknir, tveir læknar eða læknir og félagsráðgjafi, sem tekur ákvörðun fyrir hönd konunnar. Það eru þessar konur sem eru í erfiðustu og viðkvæmustu stöðunni sem hafa ekki getað farið í þungunarrof hér á landi sem hafa þurft að fara utan í þungunarrof. Að sjálfsögðu myndi þessi breyting opna á það að þessar konur gætu sótt þessa þjónustu hér heima.