149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Mér finnst við færa okkur allt of mikið frá raunverulegu markmiði frumvarpsins. Í dag á kona rétt á að fara í þungunarrof upp að 22. viku. Þannig er það bara. Það eru bara einhverjir aðrir aðilar sem taka ákvörðun fyrir hana um hvort að það sé samkvæmt lögum að hún fari í þungunarrof. Fötlunarfordómar eru innbyggðir í lögin sem við ætlum að taka út og við erum að færa sjálfsákvörðunarréttinn til konunnar, að hún ákveði þetta sjálf af því að það er enginn betur til þess fallinn að taka ákvörðun um það en konan sjálf. Við megum ekki missa sjónar á því.

Við megum heldur ekki vantreysta konum. Öll gögn benda til þess að við munum ekki að fjölga þungunarrofum með því að leyfa konum að ákveða þetta sjálfar. Það er engin hætta á því að konur fari að flykkjast í þungunarrof af því að við erum ekki að víkka út neina löggjöf. Við erum bara að setja ákvörðunina í hendur konunnar í stað þess að einhverjir aðrir aðilar taki ákvörðunina fyrir hana. Það er það sem þetta snýst um og mér þætti vænt um að umræðan héldist þar.