149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er alveg ljóst í mínum huga að í tilfelli nauðgunar ætti fóstureyðing rétt á sér. Það er mín skoðun. (Gripið fram í.) Hvað segirðu? (Gripið fram í.) Það er hérna þingmaður sem hefur líka skoðanir á þessu máli. Var það kannski hún sem hló áðan?

Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það er mjög mikil ábyrgð sem lögð er á móður — að bera ein þessa ábyrgð.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er afar vandasamt.

Í því sambandi minni ég á það sem Siðfræðistofnun segir, að þetta þurfi að ræða mjög vel. Ég hef ekki endilega svörin við öllu því sem þingmaðurinn spyr um hér. Þetta er mjög erfið spurning.

En ég velti því auðvitað fyrir mér þegar 40 læknisfræðilegar fóstureyðingar eru af 1.000 — þá hljóta væntanlega 960 að vera af einhverjum öðrum toga. Ef það er ósætti milli para með það, finnst mér það geta skipt máli. Þótt karlmaðurinn ráði ekki yfir líkama eiginkonu sinnar eða sambýliskonu hlýtur í slíkum tilfellum að vera talað um það. Ég held að fóstureyðing geti ekki verið getnaðarvörn. Ég held að það sé alveg klárt. Það verður ekki til líf nema tveir aðilar komi að.