149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:13]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt komist að kjarna málsins í málflutningi sínum og hann er: Af hverju þarf konan að vera með sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama þegar kemur að því að ganga með barn eða ekki? Það er það sem þetta snýst um hjá hv. þingmanni, hvort kona fái að ráða því sjálf hvort hún fari í þungunarrof eða ekki. Um það snýst málið.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig sér hann fyrir sér að aðkoma karlsins í því verði? Ef eiginmaður í hamingjusömu hjónabandi vill að kona sín gangi með barn sem hún vill ekki ganga með, sér hv. þingmaður fyrir sér að lögreglumenn komi og sæki konuna og tryggi að hún fari sér ekki að voða, að hún losi sig ekki við fóstrið? Verður hún neydd til að ganga með barn sem hún vill ekki ganga með? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að framfylgja vilja mannsins?

Ef við snúum því við og segjum að karlmaður vilji að konan fari í þungunarrof. Hvernig sér hann fyrir sér að framkvæma þann vilja karlsins? Hvernig eiga tveir aðilar að komast að niðurstöðu, (Forseti hringir.) að sameiginlegri ákvörðun um líkama annars þeirra? (Forseti hringir.) Hvernig á að framkvæma það?