149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir miður að hv. þingmaður fór í hártoganir um vikur, um 23 eða 22 vikur, og svaraði ekki spurningunni sem ég beindi til hans um þá fullyrðingu sem fram kemur í nefndaráliti hans að það sé almennt viðurkennt að í nær öllum tilvikum sé konum fullkunnugt um þungun sína fyrir 12. viku meðgöngu og því ætti það að heyra til undantekninga að konur geti ekki leitað þess úrræðis sem er fóstureyðing fyrir þann tíma. Ég spyr enn og aftur: Hvað með þær ungu stúlkur sem hafa þurft að fara í þungunarrof og þær konur sem búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður, hvernig blasir þetta við þeim? Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans hafa þær, vegna félagslegra aðstæðna sinna, ekki alltaf möguleika á því að átta sig á því hvort þær séu þungaðar fyrr en seint á meðgöngunni.

Mig langar líka að nýta seinna andsvar mitt til að spyrja hann um andstöðu hans við hugtakið þungunarrof og tillögu hans, breytingartillögu hans, um að fella út orðið þungunarrof og koma orðinu (Forseti hringir.) fóstureyðing í staðinn inn í frumvarpið. En vonandi getur hv. þingmaður svarað mér hinu fyrra andsvari sem (Forseti hringir.) hann gerði ekki í andsvari sínu hér á undan.