149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andmælin. Það er alveg ljóst að þetta er einn af þeim hlutum sem mér finnast mikilvægastir í þessari umræðu allri. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum búin að vera að ræða þetta í hálfa öld. Ég tel að við komumst ekki mikið lengra með umræðuna. Ég veit svo sem ekki hvert hún ætti að fara.

Mér sýnist menn hafa skipað sér í ansi svona góðar fylkingar varðandi það að leyfa þetta eða ekki. Tímamörkin einhvern veginn lenda þarna inni á milli og maður heyrir eftir því sem umræðunni vindur áfram að oft eru þau einhvers konar dulbúningur, það kemur gjarnan upp úr dúrnum þegar maður er búinn að tala lengi við fólk að menn eru bara almennt á móti þungunarrofi eða ekki.

Þannig að ég held að það að samþykkja frumvarpið og það verði þannig gert að lögum að konur ráði yfir eigin líkama að þessu leyti eins og öðru, muni ekki valda neinum skaða á siðferðislegri umræðu um þessi mál, síður en svo.

Ég get hins vegar tekið fyllilega undir að það sem er áhugavert að taka umræðu um er bara sú aðstaða sem fötluðum er búin í samfélaginu. Mig langar að vísa hérna í eina ágæta setningu úr bók sem ég er að glugga í, sem er Saga erfðafræði út frá vísindum og persónuvernd: „Fötlun er ekki ágalli heldur afleiðing mismunandi eiginleika einstaklings og umhverfis.“

Þarna á áherslan okkar að vera þegar við erum að tala um fatlaða einstaklinga.

Tölur sem ég hef rýnt varðandi þungunarrof, fóstureyðingar — hvort orðið sem er nú notað — hér á Íslandi í dag: Mikill minni hluti þeirra er vegna einhvers konar ágalla á fóstri miðað við þessar tölur sem ég hef séð.

Þetta er eitthvað sem mér finnst miklu stærra samfélagslegt mál, hvernig við búum yfir höfuð að þessum einstaklingum. Mér finnst ekki það réttlæta (Forseti hringir.) að við beitum hálfa þjóðina því ofbeldi sem mér finnst það vera að veita þeim ekki sjálfsákvörðunarrétt í þessu.