149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því í þessari umræðu að gera hér að umtalsefni breytingu á hugtakanotkun sem lögð er til í frumvarpinu, þ.e. að í stað hugtaksins fóstureyðing er nú notað hugtakið þungunarrof. Mér hugnast ekki sú breyting og í þeim efnum er ég sammála því sem fram kemur í umsögn biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, við frumvarpið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hið nýja hugtak vísar á engan hátt til þess lífs sem sannarlega bærist undir belti og er vísir að nýrri mannveru. Samkvæmt kristinni trú okkar er lífið heilagt, náðargjöf sem Guð gefur og Guð tekur. Það er hlutverk mannsins að varðveita það og vernda eftir fremsta megni og bera virðingu fyrir mannhelginni, sköpuninni og skaparanum. Það er misvísandi að nota þetta nýja hugtak í þessu viðkvæma samhengi, þar sem hugtakið vísar ekki til þessa vaxandi nýja lífs.“

Þetta kemur fram í umsögn biskups Íslands. Vil ég taka heils hugar undir þessi orð, eins og áður segir.

Það verður að segjast eins og er að með þessu nýja hugtaki er fókusinn tekin frá fóstrinu og færður alfarið yfir á móðurina. Má spyrja sig hvort verið sé að gera lítið úr lífinu sem kviknað hefur í móðurkviði. Hér er á ferðinni hugtak sem gefur tilefni til að ætla að verið sé að milda það sem raunverulega er að gerast. Verið er að binda endi á líf, það er óumdeilt.

Ég vil víkja næst að því sem ég kýs að kalla fóstureyðingu og utanaðkomandi þrýsting. Ungar konur sem verða óvænt þungaðar eru margar hverjar beittar þrýstingi til að fara í fóstureyðingu af sínum nánustu, vinum og félagslegu umhverfi. Í þess háttar aðstæðum og kringumstæðum má spyrja sig hvar sjálfsákvörðunarrétturinn sé. Spyrja má: Ef eina lausnin fyrir ungar stúlkur sem verða óvænt þungaðar er að fara í fóstureyðingu, er þá sjálfsákvörðunarréttur kvenna ekki mýta?

Í þessu sambandi má geta þess að Evrópuráðið gaf út skýrslu árið 2017 um aðstæður kvenna á vinnumarkaði í Evrópu. Í skýrslunni er þess sérstaklega getið að vinnuveitendur megi ekki undir neinum kringumstæðum beita konur þrýstingi til að fara í fóstureyðingu. Því miður eru fjölmörg dæmi um annað í ríkjum Evrópu. Auk þess er lögð áhersla á það í skýrslunni að vinnuveitendur styðji vel við bakið á barnshafandi konum. En þrátt fyrir þessa mikilvægu ályktun Evrópuráðsins, sem er vettvangur 47 Evrópulanda, þar með talið Íslands, er því miður tilhneiging til þess að draga úr þeim takmörkunum sem gilda um fóstureyðingar. Dæmi um það er einmitt frumvarp heilbrigðisráðherra sem við ræðum hér og heimilar fóstureyðingu til loka 22. viku meðgöngu. Fóstureyðingar svo seint á meðgöngu eru mjög umdeildar og þær eru umdeildar í samfélagi okkar.

Höfum hugfast að hjá 12 vikna fóstrum eru öll líffæri sköpuð og eiga einungis eftir að stækka. Þeir sem þetta frumvarp styðja hafa gjarnan nefnt tiltekna fósturgalla sem uppgötvist ekki fyrr en við 20 vikna sónar. Þess vegna verði þessi möguleiki að vera fyrir hendi.

Raunin er hins vegar önnur ef marka má rannsókn sem gerð var við háskólann í Kaliforníu, eða University of California í San Diego í Bandaríkjunum, 2013. Rannsóknin ber yfirskriftina: Hver óskar eftir fóstureyðingu eftir 20 vikna meðgöngu? Tekin voru viðtöl við 272 konur víðs vegar um Bandaríkin sem farið höfðu í fóstureyðingu eftir 20 vikna meðgöngu. Niðurstaðan var sú að mikill meiri hluti fóstranna var heilbrigður og viðkomandi konur fóru ekki í fóstureyðingu vegna alvarlegs galla á fóstri heldur vegna félagslegra aðstæðna.

Með þessu frumvarpi er verið að heimila fóstureyðingar út 22. viku meðgöngu án þess að þurfa að tilgreina ástæðu. Ég hef áhyggjur af því að þetta bjóði upp á misnotkun eins og það þegar kona vill einungis ala annað kynið. Þær aðstæður munu koma upp og þær hafa komið upp þar sem kona biður um fóstureyðingu vegna kyns eða einhverjar aðstæður breytast hjá henni á meðgöngunni. Höfum það hugfast að þá er barnið einungis nokkrum dögum frá því að vera lífvænlegt. Ég endurtek: nokkrum dögum.

Ég spyr, herra forseti, í ljósi þessa sem ég hef sagt hér: Er þetta frumvarp virkilega nauðsynlegt? Erum við ekki í stakk búin að mæta þessum konum með öðrum hætti? Efla félagslegan stuðning og auðvelda ættleiðingar? Er það auk þess nauðsynlegt þar sem staðreynd málsins er sú, samkvæmt tölum frá landlækni, að engum konum hér á landi hefur verið synjað um fóstureyðingu við 20. viku meðgöngu ef um alvarlegan fæðingargalla er að ræða?

Það er skylda stjórnvalda að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Í því felast vandaðir stjórnsýsluhættir. Að sama skapi má segja að það sé vönduð heilbrigðisþjónusta að sá sem leitar eftir þjónustunni sé nægilega upplýstur um hvað í henni felst og eftir atvikum hvaða afleiðingar hún getur haft, enda eru slík vinnubrögð viðhöfð þegar sjúklingar eru undirbúnir undir aðgerðir og annars konar læknismeðferðir.

Víkjum í þessu samhengi aðeins að því sem segir í frumvarpinu, að verið sé að styðja sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Á það hefur hæstv. heilbrigðisráðherra lagt ríka áherslu.

Herra forseti. Þetta snýst ekki bara um rétt kvenna að mínu mati. Það er grafalvarlegt að framkvæma 1.000 fóstureyðingar á ári eins og gerðar eru hér á landi og rúmlega það. Það þarf að stórauka fræðslu um ábyrgt kynlíf og getnaðarvarnir eiga að vera ókeypis.

Fyrir þinginu liggur frumvarp um að getnaðarvarnir verði í lægra skattþrepi í virðisauka. Hér er um mikilvægt skref í rétta átt að ræða og vonandi verður frumvarpið að lögum, en fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Í núgildandi löggjöf verða konur að ræða við félagsráðgjafa áður en þær taka ákvörðun um að láta eyða fóstri. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir því að ráðgjöfin sé valkvæð, þ.e. að ekki sé skylda að ræða við félagsráðgjafa. Það skýtur óneitanlega skökku við að í frumvarpi sem bæta á rétt kvenna til að taka sjálfstæða ákvörðun skuli ráðgjöfin vera felld út. Og spyrja má hvernig það rímar við að taka upplýsta ákvörðun.

Sýnt hefur verið fram á það með rannsóknum að fóstureyðingar geta haft neikvæðar afleiðingar fyrir konur, bæði andlega og líkamlega. Þessar rannsóknir hrekja fullyrðingar ákveðinna þingmanna sem settar voru fram í 1. umr. málsins hér í þingsal um að fóstureyðing hafi lítil sem engin áhrif á andlega og líkamlega heilsu kvenna. Rannsóknir frá Finnlandi, Danmörku og Bandaríkjunum sýna að almenn dánartíðni kvenna er hærri hjá þeim sem farið hafa í fóstureyðingu á lífsleiðinni en þeirra sem hafa það ekki. Þær sýndu að í 20% tilfella þar sem fóstureyðing var ýmist framkvæmd með skurðaðgerð eða lyfjum, leiddi hún til alvarlegra aukaverkana síðar á lífsleiðinni á borð við ófrjósemi og fósturlát. Í Bandaríkjunum taldist hin aukna dánartíðni tengjast sjálfskaðandi hegðun, þunglyndi og öðrum óheilbrigðum lifnaðarháttum, sem mátti rekja til afleiðinga fóstureyðinga.

Heilbrigðisráðherra er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Það er lagt fram með samþykki ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Frumvarpið er lagt fram þrátt fyrir töluverða andstöðu í grasrót Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Ráðherra var tíðrætt í flutningsræðu sinni í þinginu um sjálfsákvörðunarrétt, öryggi og heilbrigði kvenna. Spyrja má hvort þessar áherslur samrýmist beint frumvarpinu um þungunarrof sem felur það í sér að rýmka heimildir til að binda endi á líf sem hefur kviknað. Þungunarrof felur í sér ákvörðun, það snýr ekki aðeins að konunni heldur einnig hinu nýja lífi í líkama konunnar.

Þá vil ég í því sambandi vitna í orð séra Bjarna Karlssonar sóknarprests, með leyfi forseta. Hann segir að fóstur í móðurkviði eigi sér stærra samhengi en líkama móðurinnar.

Við tilheyrum samfélagi sem bindur enda á sjöttu hverja þungun. Ég spyr eins og séra Bjarni: Þurfum við þess? Er það ekki áhyggjuefni? Er það ekki áhyggjuefni að Alþingi ætlar að rýmka þessa heimild enn frekar? Ég tel svo vera.

Herra forseti. Ég tel heillavænlegt að fylgja ráðleggingum og umsögn Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands sem telur varasamt að fara sér óðslega í þessu máli því að hér sé um mörg siðferðileg álitamál að ræða sem þarfnist djúprar og upplýstrar umræðu í samfélaginu. Siðfræðistofnun telur varasamt að heimila fóstureyðingar allt að 22. viku meðgöngu. Stofnunin leggur til að tímamörkin verði þrengd niður að 18. viku. Leggja skuli áherslu á að fötluð fóstur eigi jafnan rétt til lífsins og ófötluð og er bent því til stuðnings á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Siðfræðistofnun tekur undir þau sjónarmið að ákvarðanir um þungunarrof séu teknar af konunni.

Samkvæmt tölum frá landlækni eru 95% fóstureyðinga undir 12. viku meðgöngu og 3,5% frá 13. til 16. viku meðgöngu. Einungis 1% er eftir 16 vikna meðgöngu. Þurfa þá að liggja fyrir læknisfræðileg rök fyrir aðgerðinni, svo sem vegna fósturgalla. Samkvæmt upplýsingum frá landlækni hefur engum verið synjað um þessa aðgerð eftir 16. viku. Því spyr ég: Er þá yfir höfuð nauðsyn á þessu frumvarpi og þeim breytingum sem þar eru lagðar til?

Herra forseti. Ég vil næst víkja að ekki síður viðkvæmu málefni, sem er framkvæmd fóstureyðingar. Framkvæmdin er á höndum ljósmæðra og fæðingarlækna. Það getur reynst þeim mjög erfitt siðfræðilega, því að þetta samræmist oft og tíðum ekki lífsgildum þeirra. Allt er gert til að bjarga ófæddum sem fæddum börnum, en á sama tíma þarf þetta sama starfsfólk að enda óvelkomnar þunganir. Verði frumvarpið að lögum þarf starfsfólkið að framkvæma fóstureyðingu þar sem barnið er aðeins örfáum dögum frá því að geta fæðst og lifað af.

Eins og við þekkjum er skortur á heilbrigðisstarfsfólki og hafa stjórnvöld ekki gert neinar raunhæfar áætlanir um hvernig bregðast skuli við þeim vanda. Þó svo að lögin kveði á um að starfsfólk geti neitað að taka þátt í að framkvæma fóstureyðingar eru aðstæðurnar oft slíkar sökum manneklu að heilbrigðisstarfsfólk hefur oft og tíðum ekkert val um annað og verður því miður að segjast eins og er að í sumum tilfellum er starfsfólki þröngvað til að framkvæma fóstureyðingar þó svo að því finnist það alls ekki rétt. Stjórnvöld mega ekki og geta ekki sett starfsfólk í þessar aðstæður og má minna á í læknaeiðnum er kveðið skýrt á um að vernda líf.

Ég vil í þessu sambandi aðeins koma inn á það sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson sagði hér áðan í andsvari. Hún sagði að þetta mál, þetta frumvarp um þungunarrof og að framlengja tímamörkin með þessum hætti — ég held að hv. þingmaður hafi orðað það þannig að það kæmi ekki læknum eða heilbrigðisstarfsfólki við. Ég verð að lýsa miklum vonbrigðum mínum með þá framsetningu hv. þingmanns, vegna þess að þetta skiptir heilbrigðisstarfsfólk verulegu máli, eins og við þekkjum. Verulegu máli.

Ég vil víkja næst að Læknafélagi Íslands, en félagið er mótfallið því að þungunarrof verði heimilað til loka 22. viku. Læknafélagið sér ekki ástæðu til að Ísland gangi í þessu frumvarpi lengra en nokkurt hinna Norðurlandanna hefur séð ástæðu til að gera og leggur Læknafélagið til að fyrirkomulag gildandi laga að þessu leyti verði áfram viðhaft. Rök félagsins eru með tvennum hætti. Í fyrsta lagi tekur Læknafélagið fram að í núgildandi lögum séu tímamörkin hvort eð er sett fram með þeim hætti að þau gefi konum ætíð kost á því að leita þungunarrofs. Í öðru lagi að hvergi á Norðurlöndunum sé miðað við jafn langa meðgöngu gagnvart þungunarrofi og lagt er til í þessu frumvarpi.

Hins vegar er rétt að geta þess, og ég gat þess áðan í andsvari, að umsögn Læknafélagsins við frumvarpið var óvænt dregin til baka, sem bendir til þess að málefnið sé mjög umdeilt innan raða heilbrigðisstarfsfólks. Ég kannaði það sérstaklega og ástæðan fyrir því að umsögnin var dregin til baka var einfaldlega mikið ósætti um málið og ósamstaða. Það undirstrikar mikilvægi þess sem fram kemur í áliti Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands um að mikilvægt sé að afgreiðslu frumvarpsins verði ekki flýtt um of vegna grundvallarspurninga um siðferðileg álitamál sem þarfnist upplýstrar umræðu í samfélaginu.

Herra forseti. Það á ekki að vera hlutverk stjórnvalda að mínum dómi að rýmka svo mikið heimildir til fóstureyðinga. Málið er mjög umdeilt og viðkvæmt. Það á að vera hlutverk stjórnvalda að tryggja bestu fáanlegu mæðravernd og efnahagslegar og félagslegar aðstæður sem hvetja konur til að standa með lífinu, lífinu sem guð gaf og hefur heitið okkur að blessa.