149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

frumvarp um þungunarrof.

[15:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni að mál af þessu tagi hafi ekki ratað inn á Alþingi síðan 1975 vegna þess að þá náðist ákveðin niðurstaða í mál þar sem krafan um sjálfsákvörðunarrétt kvenna var brotin á bak aftur. Síðan eru liðin öll þessi ár, 44 ár.

Þegar ég kom inn í heilbrigðisráðuneytið lá þar fyrir skýrsla sem var beðið um af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þá heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, þar sem frumvarp af þessu tagi var lagt til með mjög eindregnum og faglegum hætti. Þessi skýrsla lá á borðinu þegar ég kom að í ráðuneytinu og mér þótti einboðið að færa niðurstöðu nefndarinnar til Alþingis vegna þess að það er Alþingi sem á að taka ákvörðun um þessa hluti en ekki ráðherrann einn og sjálfur.

Ég verð að segja, þó að ég muni sjálfsagt gera betur grein fyrir því við atkvæðagreiðslu á eftir, að mér hefur fundist þingið sýna í umræðu um þetta mál hvers það er megnugt vegna þess að málið hefur verið tekið til mjög ítarlegrar umfjöllunar í hv. velferðarnefnd. Þar hafa málin skipast þannig að niðurstaða eða afstaða til málsins er ekki endilega í samræmi við stuðning við ríkisstjórn eða andstöðu við hana heldur afstöðu til málsins sem slíks. Það er kannski nákvæmlega þannig sem þingið á að virka, að við tökum öll afstöðu fyrst og fremst út frá málinu sem slíku.

Ég tel að þó að þetta mál snúist fyrst og fremst um sjálfsákvörðunarrétt kvenna sé hægt að rökstyðja þá niðurstöðu á mjög margan hátt. En niðurstaðan er alltaf þessi. Hún er rétt (Forseti hringir.) fyrir konur, hún er rétt fyrir þá skoðun og þá eindregnu afstöðu að konan eigi að ráða líkama sínum sjálf.