149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mér finnst mikilvægt að þakka hv. þingmönnum í velferðarnefnd fyrir þá vinnu sem við unnum vegna þess að við fengum gríðarlega marga gesti og þetta er búið að vera erfitt mál fyrir marga sem sitja í velferðarnefnd. Við erum búin að ræða þetta fram og til baka og þótt þrír aðilar í velferðarnefnd hafi skilað séráliti náðum við samt saman um niðurstöðu í þessu máli í velferðarnefnd. Ég kann ofboðslega vel að meta það og þá vinnu sem fór þar fram og mig langar til að þakka fyrir það.

Þetta er gríðarlega mikið mál og ég er ofboðslega stolt af að hafa fengið að taka þátt í því. Mér þykir miður að umræðan hafi farið í þann farveg sem hún fór vegna þess að það sem við erum að tala um er mjög lítill hópur kvenna sem eru oft í ofboðslega erfiðum aðstæðum og að taka gríðarlega erfiðar ákvarðanir sem þær þurfa að bera ábyrgð á alla sína ævi. Hér hefur fólk talað um þessar konur eins og þær séu einhvers konar illmenni og mér þykir ótrúlega sárt að hafa þurft að hlusta á það. (Forseti hringir.)

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þetta mikilvæga mál, ég er stolt af því að hafa tekið þátt í því og ég þakka velferðarnefnd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)