149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

826. mál
[19:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Hér er lagt til að lækka bankaskattinn og ég hef áður sagt að það hefur verið sérstakt áhugamál þessarar ríkisstjórnar að lækka gjöld á bankana. Þetta eru ekki einu gjöldin sem stendur til að lækka heldur hefur nú þegar verið lækkað gjaldið til Fjármálaeftirlitsins og síðan stendur til að lækka gjaldið í innstæðusjóð, þ.e. innstæðutryggingarsjóðinn.

Það sem ég vildi koma inn á er að þessi skattur var settur á fót til að mæta útgjöldum íslenska ríkisins og Íslendinga vegna bankahrunsins. Það voru einmitt bankarnir sem komu Íslandi og Íslendingum í hina slæmu stöðu eins og við þekkjum öll og þurfa að greiða það til baka. Áður en þessi skattur er lækkaður eða tekinn af þá þarf að svara grundvallarspurningum. Það þarf t.d. að svara því hvort íslenska ríkið sé búið að fá endurgreitt það sem það lagði út vegna hrunsins með vöxtum og áhættuálagi. Einnig þarf að svara því hvort Íslendingar hafi fengið til baka það sem þurfti að leggja út vegna falls bankanna. Það væri fróðlegt að fá svör við því frá hæstv. fjármálaráðherra hvort ríkið sé búið að fá það endurgreitt sem það lagði út vegna hrunsins og þá með vöxtum og áhættuálagi og hvort Íslendingar hafi fengið til baka það sem þeir þurftu að leggja út vegna falls bankanna. Þetta eru grundvallarspurningar sem þarf að svara þegar á að fara að lækka þennan skatt.