149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Innan skamms verður gengið til kosninga til Evrópuþingsins. Þær kosningar skipta okkur Íslendinga miklu máli, enda er Evrópusambandið okkar nánasti samstarfsaðili og mótar að stórum hluta íslenskt samfélag vegna EES-samningsins. Popúlismi setur mark sitt á stjórnmál í Evrópu og þar með kosningarnar til Evrópuþingsins. Nægir þar að minna á einn holdgerving popúlismans, Nigel Farage í Bretlandi, fylkingu Matteo Salvini á Ítalíu og Fimm stjörnu hreyfingu Luigi Di Maio.

Popúlisminn hefur líka fundið sér bólstað í íslenskri pólitík og fundið sér andstæðing og ógn sem steðjar að í formi þriðja orkupakkans, innflutningi matvæla, EES-samningnum, innflytjendum og flóttafólki. Auðvitað er allt þetta að undirlagi illra afla sem hafa miðstöð sína í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel. Öll slík þróun er hættuleg og vinnur gegn almannahagsmunum og bráðnauðsynlegri alþjóðasamvinnu sem hefur það að markmiði að varðveita frið og mannréttindi á grundvelli samvinnu þvert á landamæri og takast á við verkefni sem þjóðríkin ein og sér ráða ekki við.

Það er verkefni frjálslyndrar afla innan Evrópu og líka hér á landi að spyrna við fótum og taka höndum saman um að koma í veg fyrir að popúlistarnir nái undirtökunum. Ég finn mig knúinn til að fjalla um þetta einmitt í dag vegna þess að á eftir ræðum við þriðja orkupakkann sem dregur með skýrum hætti fram hvernig popúlistar vinna og svífast einskis í málflutningi sínum og láta sig rök og staðreyndir í léttu rúmi liggja. Það eiga þeir sér sameiginlegt, sama hvort það er í Evrópu, Bandaríkjunum eða Íslandi.