149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyni að venja mig á að draga ekki ályktanir alfarið út frá því hvaðan hlutirnir koma, hver skrifar það sem ég les, heldur því sem ég les. Það sem stendur í orkupakkanum stendur í honum óháð því hver skrifaði það. Meira að segja óháð því hvers vegna það er skrifað. Þar bara stendur það sem þar stendur.

Í 8. gr. reglugerðar 713/2009 er ekkert sem getur mögulega haft neitt að segja á Íslandi fyrr en sæstrengur kemur vegna þess að hún varðar bara sæstreng. Það er það eina sem hún varðar. Það er ekkert í þessari grein sem kemur neinum við á Íslandi nema það sé sæstrengur. Það er eins og að setja einhver lög um að ekki megi mála eitthvert hús sem ekki er til.

Hins vegar er fyrirvarinn til þess að fresta virkni 8. gr. þar til lagður yrði sæstrengur. Þá er það orðið stjórnarskrárlegi vafinn sem hv. þingmaður talar um. Með öðrum orðum: Lagning sæstrengs ætti að vera erfiðari eftir að þessi orkupakki hefur verið innleiddur, en ekki auðveldari. Það skiptir máli vegna þess að svo stór og veigamikill hluti af rökstuðningi hv. þingmanns í málinu veltur greinilega á því að það sé gefið að lagður verði sæstrengur, (Forseti hringir.) hækkun verðsins og allt það.