149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Við fórum einmitt yfir þetta í nefndinni. Það var akkúrat ekkert sem kom fram annað en það að raforkuverð hefur lækkað, sérstaklega þar sem samkeppni hefur verið og var innleidd í gegnum fyrsta og annan pakkann. Það kom m.a. fram í morgun á fundi atvinnuveganefndar þar sem Orkustofnun var og dró þetta sérstaklega fram. Þess vegna skiptir þetta Orkustofnun og okkur neytendur máli og fyrirtækin sem eru smám saman að átta sig á að það er hægt að fá hagstæðara verð í gegnum dreifingu og flutning á orku. Þau verða að vita það að Orkustofnun fái þessar skýru heimildir, m.a. í gegnum orkupakkann sem er verið að innleiða, til að veita einokunarfyrirtækjum sem eru í okkar eigu aðhald þannig að þau veiti upplýsingar, þannig að ríkisrekin fyrirtæki geti ekki veitt einu fyrirtæki, dreififyrirtæki, þetta verð og hinu fyrirtækinu annað verð. Það skiptir mjög miklu máli. Það á enginn að vera hræddur við gagnsæi.

Varðandi fullveldið þá hef ég margítrekað sagt að hvert það skref sem við höfum tekið í gegnum alþjóðasamninga og bandalög, hvort sem það er NATO, EFTA eða í gegnum EES-samninginn, hefur styrkt okkar fullveldi. Það hefur styrkt það af því að við ákváðum að beita fullveldi okkar í þá veru að efla innviðina, gera okkur sterkari út á við og inn á við. Sagan hefur sýnt að það var rétt skref að taka að vera þátttakendur í öllu því samstarfi sem ég hef m.a. verið að benda á. Þess vegna er svo hættulegt ef á að fara að rugga því og við veikjum hugsanlega stöðu okkar innan EES-samstarfsins. Við megum ekki gera það, við höfum ekkert við það að gera, það er alger óþarfi, sérstaklega í þessu máli.