149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara halda því til haga að ég geri ekki þá kröfu til neins að hann lesi allt skjalið sem hann vitnar í. Það er allt í lagi að tína eitthvað til úr einhverjum skjölum, það er bara gott og blessað, og þannig að það henti málsstað manns. En það er ekki heiðarlegt þegar taktískt er sleppt úr hlutum sem eru í beinni mótsögn við það sem maður sjálfur er að segja. Ég hef ekki gert neitt slíkt. Ég var að benda á það í fari hv. þm. Ólafs Ísleifssonar hérna áðan og vona að það sé þá bara komið á hreint.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann spurningar. Hann hefur áhyggjur af því að lagning sæstrengs gæti gerst mjög hratt í ljósi þess að flokkar hafa sagt hluti sem síðan reynast ekki réttir þegar komið er á þing. Ég deili nefnilega þeim áhyggjum hv. þingmanns. Eins og ég sagði áðan er ég á móti sæstreng, tel hann ekki samræmast íslenskum hagsmunum.

Ég sé hins vegar ekki hvað það er við þriðja orkupakkann sem myndi auðvelda lagningu slíks sæstrengs. Ég sé ekki hvað það er við þriðja orkupakkann sem ríkisstjórnin myndi sjá fyrir sér að myndi auðvelda henni að leggja slíkt til. (Forseti hringir.) Hún gæti lagt það fram í dag að leggja sæstreng. Þarf ekki þriðja orkupakkann til þess, að mér vitandi.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann: Hvað er það í þriðja orkupakkanum sem auðveldar ríkisstjórninni að leggja sæstreng?