149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur enginn dregið í efa að þingið getur hafnað innleiðingunni. Þessar reglugerðir og þau ákvæði sem þarna fylgja með hafa ekkert gildi gagnvart Íslandi nema þau séu samþykkt á Alþingi. Það er gríðarlega mikilvægur öryggisventill í þessu evrópska samstarfi. Auðvitað er gert ráð fyrir því að athugasemdir, óskir um undanþágur eða breytingar komi fram á fyrri stigum mála, meðan mál eru í undirbúningsferli og áður en þau eru tekin fyrir, og afgreidd af hálfu sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þegar það hefur verið gert í samvinnu við sameiginlegu EES-nefndina skapast ákveðin skuldbinding sem við getum vissulega stöðvað núna. Það kann að hafa ýmsar afleiðingar (Forseti hringir.) varðandi bæði þetta svið EES-samningsins og stöðu samningsins í heild (Forseti hringir.) sem ég get ekki farið út í núna. Spurningin er hins vegar: Höfum við tilefni til þess að grípa í þennan neyðarhemil, ef svo má segja, í þessu tilviki? Mitt svar er nei.

(Forseti (GBr): Enn áréttar forseti við hv. þingmenn að virða hin knöppu tímamörk.)