149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:03]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegur forseti. Það væri freistandi að gera ræðu síðasta ræðumanns að umtalsefni hér vegna þess að hún kom mér dálítið á óvart eða kannski réttara sagt olli mér vonbrigðum. Hv. þingmaður var einn af fáum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem maður hafði einhverja von um að myndi standa með stefnu eigin flokks í þessu máli. En svo kom hann hingað og flutti ræðu sem ég myndi ekki treysta mér til að greina frá ræðu hvers annars Viðreisnar- eða Samfylkingarþingmanns um þetta mál, hefði ég ekki heyrt hv. þingmann flytja ræðuna sjálfan.

En það verður hins vegar að bíða næstu ræðu að fara nánar yfir það því að mér urðu á dálítil mistök þegar ég var að reyna í síðustu ræðu að klára að fara yfir minnihlutaálit utanríkismálanefndar. Ég byrjaði of aftarlega í álitinu og einn kafli, mikilvægur kafli, þeir eru raunar allir mikilvægir, datt út. Nú ætla ég, virðulegur forseti, að klára þessa yfirferð yfir minnihlutaálit í utanríkismálanefnd með því að fara yfir kaflann sem ber yfirskriftina Áhrif á EES-samninginn. Það er atriði eins og menn þekkja sem fylgst hafa með umræðunni sem hefur verið töluvert rætt.

Því hefur verið haldið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki óhætt að nýta þær heimildir sem EES-samningurinn veitir okkur til að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fara fram á lögfræðilegar undanþágur á þeim vettvangi. Slík viðhorf eru til þess fallin að vekja verulegar áhyggjur af því hvernig íslensk stjórnvöld nálgast samninginn. Sú staðreynd að Ísland hafi að mati ESB staðið sig vel við innleiðingu EES-reglugerða, einkum fyrri orkupakka, hefur verið notuð sem rök fyrir því að undanþágur vegna þriðja orkupakkans séu óþarfar.

Athygli er vakin á því að Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, lýsti því í greinargerð sem hann vann fyrir utanríkisráðuneytið að réttur Íslands til að vísa málum til sameiginlegu EES-nefndarinnar væri vissulega til staðar. Í sama áliti velti hann vöngum yfir því hvort samstarfsþjóðir okkar tækju því illa og hvort það gæti þannig haft áhrif á EES-samstarfið. Því til rökstuðnings nefndi hann þá skoðun sína að Norðmenn litu á Ísland og Liechtenstein sem aukaþátttakendur í EES-samningnum og að á þeim forsendum ætluðust þeir til að Noregur fengi að ráða ferðinni um samstarfið. Augljóst má vera að íslensk stjórnvöld geti ekki leyft sér að taka undir slíka túlkun og veita fordæmi sem styrkja hana í sessi. Þvert á móti kallar þetta mat á að Ísland sýni að það telji sig þátttakanda í EES-samstarfinu á jafnréttisgrundvelli.

Ofangreint er auk þess áminning um að mikilvægt sé að nýta þann rétt sem við höfum til að verja eigin þjóðarhagsmuni innan samstarfsins, enda sé annað túlkað sem eftirgjöf þeirra réttinda. Það að beita þeim rétti sem EES-samningurinn veitir okkur er því til þess fallið að styrkja þátttöku Íslands í samstarfinu og samninginn sjálfan til framtíðar. Ljóst má vera að Ísland geti ekki verið aðili að alþjóðasamningi sem grundvallast á ótta við samstarfsaðilana að því marki að íslensk stjórnvöld treysti sér ekki til að nýta þann rétt sem þó er skrifaður í samninginn.

Svo að ég ítreki það sem ég hef farið yfir hér, virðulegur forseti, má segja að það sé í raun nauðsynlegt upp á framhald EES-samstarfsins að gera að við sýnum það nú að við séum reiðubúin til að nýta þann rétt sem samningurinn veitir okkur, fremur en að búa til annars konar fordæmi, það fordæmi að við, eins og við höfum því miður heyrt í allt of mörgum ræðum í þessari umræðu, treystum okkur ekki til að nýta réttinn sem skrifaður er í samninginn.