149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:14]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi rök slá mig auðvitað illa en þau eru um leið áminning um mikilvægi þess að við séum reiðubúin til að setja fordæmi í rétta átt, þ.e. setja fordæmi sem undirstrikar að við eigum þennan rétt, viljum halda honum og séum tilbúin til að beita honum þegar tilefni er til.

Þegar svo bætast við athugasemdir eins og við heyrðum og lásum m.a. frá Carl Baudenbacher er það áminning um að þetta sé líka spurning um að undirstrika að við störfum með félögum okkar, EES-löndunum, Noregi og Liechtenstein, á jafnréttisgrundvelli. Ef við ætluðum okkur að fallast á þá leið sem ríkisstjórnin leggur til, eins gölluð og hún er, af þeim ástæðum að við viljum ekki styggja norska embættismenn værum við að skapa afar skaðlegt fordæmi í samskiptum þessara þriggja ríkja, EFTA-ríkjanna sem eru þátttakendur í EES, og með því um leið auðvitað að veikja samstarfið og samninginn til frambúðar.

Fyrst ég nefni Norðmenn er þó rétt að láta þess getið að hvað sem líður athugasemdum um að norskir embættismenn kynnu að taka því illa að við verðum rétt okkar í þessu, er mjög stór hluti Norðmanna, og norskra þingmanna þar á meðal, þeirrar skoðunar að Íslendingar hafi þennan rétt og það sé æskilegt að Íslendingar nýti hann því að það muni ekki aðeins gagnast Íslandi heldur ekki síður Noregi að leiða þetta mál til lykta svo ásættanlegt sé fyrir bæði löndin.