149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þróun raforkuverðs eftir að þessi pakki verður innleiddur þá munum við strax sjá breytingar, einhverja hækkun. Við vitum ekki hversu mikla. Það er verið að leggja til um 45% hækkun á eftirlitsgjaldi til orkufyrirtækjanna, þ.e. þau þurfa að borga 45% hærra gjald en þau gera í dag. Það kemur fram í umsögn frá HS Orku og frá fleiri fyrirtækjum að þessi hækkun muni fara út í verðlagið. Þeir segja það beinum orðum. Þá sjáum við strax einhverja hækkun. En fyrst og fremst verður hækkunin veruleg þegar sæstrengurinn er kominn og orkan verður seld til Evrópu. Þá mun verða gerbreyting á þeim lífsgæðum okkar að (Forseti hringir.) hafa aðgang að hreinni og ódýrri orku.