149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:56]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Stutta svarið er já. En aðeins lengra svar við þessari ágætu spurningu — og ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið — er að það þekkir það hver einasti maður sem hefur þurft að standa í samningaviðræðum við aðila yfir lengri tíma að það er eðlismunur á samningi sem þú ætlar að gera einu sinni og samningi til lengri tíma. Þú ert að kaupa bíl eða reiðhjól í útilífsverslun, en það er annars eðlis, svona skammtímaviðskiptasamband, einskiptis, en viðskiptasamband eða samningssamband eins og er á milli ríkja í EES-samningnum. Eðli slíks samstarfs er allt annað en skammtímaviðskiptasambands. Ef menn veigra sér við að nýta þann rétt, nýta þau réttindi, sem þjóð hefur, eins og Ísland í þessu tilviki, samkvæmt samningnum, mun það veikja stöðuna þegar frammí sækir. Þá munu menn vísa í það samtal sem átti sér stað hér á Alþingi árið 2019 að vori til þar sem meiri hlutinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta ferli, að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, hafi meira verið upp á punt fyrir 25 árum og ekkert væri á því byggjandi.

Ég held að leiðin til að tryggja að þau varnarákvæði sem eru í samningnum virki raunverulega sé að nota þau þegar tilefni er til. Ég er algerlega sannfærður um að nú er tilefni til þess að senda málið aftur í þennan farveg sem hefur verið til staðar í á hálfan þriðja áratug. Það er ekkert sem hefur komið fram í umræðunni sem bendir til þess að við ættum að vera eitthvað lítil í okkur hvað það varðar.