149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög athyglisverðar hugleiðingar og spurningu. Þetta skiptir verulegu máli í þessari umræðu allri. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að með innleiðingu, með því að innleiða orkupakka þrjú, erum við að undirbúa jarðveginn. Við sjáum kannski ekki fyrir okkur að sæstrengur sé að koma á morgun en það er styttra í hann en menn halda. Tækninni fleygir ótrúlega mikið fram, framleiðslan orðin ódýrari o.s.frv. þannig að þetta mun verða að veruleika.

Í því sambandi þá held ég að menn vanmeti einmitt mjög áhuga Evrópusambandsins, sérstaklega stjórnarliðarnir sem vilja innleiða þennan orkupakka. Þeir segja að þetta skipti okkur ekki máli, við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Ég held að það sé alveg kolrangt mat á stöðunni. Evrópusambandið er í mjög mikilli þörf fyrir hreina orku og Evrópusambandið er eitt af mjög fáum stórveldum sem horfa fram á að það verði skortur á hreinni orku og skortur almennt á orku í framtíðinni vegna þess að nýting jarðefnaeldsneytis er mjög mikil og það er verið að hverfa frá kolavinnslu o.fl.

Kjarni málsins er þessi: Ísland er mjög álitlegur kostur vegna þess að hér er hrein orka og þeir eru búnir að setja þetta upp. Það er búið að teikna, eins og ég nefndi, sæstrenginn frá Íslandi til Evrópu (Forseti hringir.) á kort. Það sýnir að auðvitað stefna þeir í þessa átt og það er markmiðið. (Forseti hringir.) Markmiðið er að komast yfir hreina orku. Við erum búin að undirbúa það með því að innleiða þennan orkupakka þannig að það verður í raun og veru allt tilbúið. (Forseti hringir.) Menn horfa fram hjá veruleika málsins.

(Forseti (ÞorS): Enn minnir forseti á tímamörk.)