149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:45]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Það kemur fram, þegar um fjórða orkupakkann er að ræða, að raforkuverð muni hækka. Ef maður fer að velta því fyrir sér getum við sagt að orkuverði verði jafnað upp á við, alla vega fyrir okkur hér á Íslandi. Ég get tekið undir það að það er svolítið merkilegt að við höfum ekki enn fengið kynningu á orkupakka fjögur. Ég tek enn fremur undir það að það væri jafnvel nær að fresta málinu til haustsins ef menn ætla ekki að nýta sér þann lagalega rétt okkar að færa málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Talað er um það, í reglugerð við fjórða orkupakkann, að mælt sé fyrir um frekari ákvæði sem skipta máli, sérstaklega þegar við tölum um viðskipti yfir landamæri og þá með það að markmiði að tryggja vel að allur raforkumarkaðurinn verði samþættur. Það þýðir að allir sem eru á þessum sama markaði verða að hafa jafnan aðgang. Það er líka svolítið merkilegt að velta því fyrir sér að þar kemur fram að innlendir þættir megi ekki vera takmarkandi. Þá fer ég að hugsa um þessa orkustefnu sem ekki er búið að setja fyrir Ísland, hvort ekki þurfi einmitt að drífa í því að koma henni á koppinn til þess að við séum búin að girða fyrir það sem verið er að kynna okkur í fjórða orkupakkanum.