149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er að koma berlega í ljós hvernig þetta liggur: Með því að fella brott stjórnskipulega fyrirvarann hefur Ísland axlað þá þjóðréttarlegu skuldbindingu að innleiða þessar gerðir, þar á meðal reglugerð 713 með öllu því sem henni fylgir. Þessi lagalegi fyrirvari breytir engu um það. Hann hefur ekki hið minnsta gildi út frá þjóðarétti og yrði hvergi tekinn alvarlega. Það blasir við. Hann er einhvers konar leiktjöld til að fela það sem segir í álitsgerð tvímenninganna um að það sé heimildarlaust með öllu að taka upp ákvæði hér í ljósi þess að svo standi á í svipinn, eins og þeir orða það í sinni ágætu greinargerð, að ekki sé fyrir hendi tenging við raforkukerfi Evrópu.

Þessar gerðir munu því (Forseti hringir.) öðlast lagagildi að þessari þingsályktunartillögu samþykktri og svo geta menn þá ornað sér við að hér sé lagalegur fyrirvari sem ekki nokkur maður mundi ansa nokkurs staðar úti í heimi, hvað þá nokkur dómstóll.