149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:17]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég geri enga athugasemd við það að hann haldi áfram að hjakka aðeins í þessu máli, eins og hann orðaði það. Ég held að við séum ekki að hjakka í einu eða neinu hér, það er bara verið að reyna að kryfja málin til mergjar, reyna að finna lausnir eða möguleika á því að hægt sé að gera þetta í sátt við þing og þjóð. Hv. þingmaður varpaði fram spurningunni hvort það væri virkilega svo að stjórnarliðar ætluðu að loka augum og eyrum fyrir því hvað sé í farvatninu, hvað sé handan við hornið, hvað felist í því sem kemur á eftir orkupakka þrjú. Menn greinir á um það í þessum sal hvað felst í honum og ekki höfum við náð neinu samtali við stjórnarliða um það hvað felist í þeim fjórða, þar sem þeir hafa hlaupið frá þessari umræðu, og hvað þá þeim fimmta sem nú er í smíðum.

Við hljótum að þurfa að velta því mjög alvarlega fyrir okkur hvort um sé að ræða framsal á valdi og hvort í orkupakka þrjú felist einhver þau skref við innleiðingu hans sem fyrirbyggja að við getum hafnað einhverju sem síðar kæmi í fjórða orkupakka, þ.e. að ekki sé hægt að snúa af leið síðar meir.

Mig langar til að varpa því fram sem mögulegum leiðum til sátta og fá hugleiðingar hv. þingmanns um það hvort mögulegar leiðir út úr þessu máli sem við sitjum yfir í dag væru þrjár, þ.e. frestun á þessari innleiðingu, algjör höfnun á að innleiða þriðja orkupakkann eða að taka málið og vísa (Forseti hringir.) í sáttameðferð hjá sameiginlegu EES-nefndinni. Á þessu er ákveðinn eðlismunur.