149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er einmitt kannski mergurinn málsins, að það virðist vera að í þessu máli, sem er gríðarflókið og það eru allir sammála um að málið sé gríðarflókið nema náttúrlega þeir sem eru svo helteknir af því að þeir segja að þetta skipti engu máli og þetta sé allt saman í gúddí — afsakið, herra forseti — að við þurfum ekkert að vera að velta þessu fyrir okkur og eigum bara að samþykkja þetta strax.

Nú segi ég aftur að mér finnst sem þessi síðustu dægur hafi umræðan um málið dýpkað, að hér hafi komið fram ný atriði sem okkur voru ekki ljós áður, og þá segi ég aftur hvað þá almenningi. Ég skil ekki fyrir mitt litla líf að ríkisstjórnin skuli ekki hafa gert meira til að kynna málið, jafn flókið og það er, kosti þess og galla fyrir almenningi. Ég skil heldur ekki ef það er svona ofboðsleg réttarbót að framkvæma þetta eins og vilji virðist standa til og vera, hvers vegna í ósköpunum menn koma þá ekki fram og telja upp alla þessa kosti og segja þessum 60% sem taka afstöðu á móti samningnum, af hverju koma menn ekki fram með lista af rökum og segja: Þetta er betra, þetta er betra o.s.frv. og færa rök fyrir því og kynna þetta mál? Af hverju menn reyna þá ekki að vinna á sitt band kjósendur sína sem eru á móti þessu af því að ríkisstjórnarflokkarnir eru að troða málinu í gegnum þingið og troða því ofan í hálsmálið á fylgismönnum sínum, þ.e. í síðustu kosningum. Ég efast um að þeir verði fylgismenn í næstu kosningum en (Forseti hringir.) það læt ég mér í sjálfu sér í léttu rúmi liggja. En mér finnst í alvöru, herra forseti, að hér þurfi að kynna málið miklu betur fyrir almenningi.