149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ágætu greiningu. Þarna erum við einmitt komin að kjarna málsins, að ríkisstjórnin er að velja þann kost sem er mjög hæpinn og alls ekki besti kosturinn. Besti kosturinn er að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina eins og hefur verið margnefnt hér, fá þá úr því skorið og fá þá varanlega undanþágu. Hér er verið að taka mikla áhættu sem enginn veit nákvæmlega hvernig kemur til með að enda. Mér fannst einmitt gott hvernig hv. þingmaður skýrði þetta út. Maður veltir fyrir sér hvers vegna stjórnvöld eru tilbúin að taka þessa áhættu. Það er nokkuð sem þarf að svara vegna þess að afleiðingarnar geta orðið verulegar ef síðan kemur í ljós að menn fóru fram úr sér, þetta kemur ekki til með að halda og við horfum fram á valdaframsal sem er verulega alvarlegur hlutur.

Maður veltir því fyrir sér hvers vegna stjórnvöld eru tilbúin að taka þessa áhættu og fara leið sem er ekki besti kosturinn. Það finnst mér engan veginn hafa verið skýrt nægilega vel. Jú, það er talað um að menn óttist að EES-samningurinn geti farið í uppnám ef farin verður sú lögformlega leið að óska eftir því að málið verði tekið fyrir í nefnd sem hefur það (Forseti hringir.) hlutverk að leysa svoleiðis verkefni. Þetta vekur upp margar spurningar, herra forseti.