149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir andsvarið. Ég held að ekki sé hægt að svara því öðruvísi en játandi að tilhneigingin í umsögnunum er í þá veru — nú ætla ég að fara út á þunnan ísinn af því að ég hef ekki talið þetta — að raunhagkerfisfyrirtæki hafa áhyggjur af þessu að meiri hluta til, held ég að ég leyfi ég mér að segja, þau sem hafa ekki stofnanaígildi falið í sér. Sveitarfélögin eru mjög efins og ég held að það sé út af nándinni við þessi millistóru og litlu fyrirtæki sem eru alltumlykjandi í sveitarfélögunum og eru kjarnaeining sveitarfélaganna. Síðan er það aftur þessi tenging einstaklinganna við sveitarfélögin. Ég held að þetta sé skýringin.

Þeir sem sjá fyrir sér að þeir finni fyrir verðbreytingum á eigin skinni hafa áhyggjur af þessari innleiðingu. Það eru kannski frekar þeir sem standa ekki í beinum rekstri þar sem þetta er áberandi útgjaldaliður sem eru jákvæðir. Þessi greining mín er eflaust töluvert einfölduð en ég held að breiðu línurnar liggi nokkurn veginn þannig.