149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:40]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þegar maður les yfir umsagnir sveitarfélaganna — sem eru a.m.k. fimm, hugsanlega fleiri — þá er það gegnumgangandi að þau vilja vera sannfærð um að tryggt sé að ekki sé um valdframsal að ræða með innleiðingu orkupakkans.

Þau gjalda varhug við því og telja líkur á að þetta leiði til hækkunar raforkuverðs. Það eru nokkur sveitarfélög sem telja svo vera og telja líkur á hækkun á verði rarforku, benda á mikilvægi orkuauðlindarinnar og þess að hún sé í höndum íslenskra aðila og Íslendinga. Síðan segir líka að þau telji þennan orkupakka ekki þjóna hagsmunum Íslands.

Ég spyr hv. þingmann um tilhneiginguna í þessum umsögnum, eins og hann kom inn á, ef það er rétt að það séu einungis opinberar stofnanir sem eru jákvæðar út í þennan pakka en einstaklingar, sveitarfélög og jafnvel fyrirtæki gjaldi varhug við honum.