149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur við að maður finni til með hv. stuðningsmönnum þessa máls. Þeir eru að skrifa þessar litlu heimaritgerðir sínar í blöðin. Má ég leyfa mér að vitna hér, með leyfi forseta, í grein eftir hv. þm. Vilhjálm Árnason sem birtist í Fréttablaðinu í morgun en þar segir, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir um ráðstöfun eða nýtingu jarðhitans, vatnsafls eða vindorku verða áfram alfarið hjá Íslendingum.“

Ég ætla ekki að fjalla um málfarið í þessari setningu en vil hins vegar benda á að hér liggur fyrir ítarleg greinargerð, ítarleg lögfræðileg álitsgerð, sem er gerð af lögfræðilegum ráðunautum ríkisstjórnarinnar, hinum virtustu mönnum og traustustu og bestu, sem fjalla sérstaklega um það, í ítarlegu máli, að ekki bara ráðstöfun og nýtingu íslenskra orkuauðlinda heldur líka skipulagi verði þannig komið fyrir að þessum orkupakka samþykktum að erlendar stofnanir hafi, eins og það er orðað, „a.m.k. óbein áhrif varðandi skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda íslensku þjóðarinnar“.