149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hugleiðingarnar og spurningarnar. Það vakti athygli mína að munur var á umsögnum í þessu máli. Það vill nú vera þannig, í mjög mörgum lagafrumvörpum sem eru til meðferðar hér á þinginu, að mikill þungi er lagður í umsagnir frá opinberum aðilum, opinberum stofnunum, sem heyra undir ráðuneyti. Kerfið er því oft og tíðum að tala við sjálft sig. Það er að mínu mati frekar skondið, herra forseti, að menn séu svona að senda bréf á milli herbergja. Lagafrumvörpin eru yfirleitt samin í ráðuneytunum. Síðan koma þau hingað inn og berast nefndunum. Umsagnarbeiðnir eru sendar út og flest svörin koma frá undirstofnunum ráðuneytanna og því má eiginlega segja að verið sé að skjótast og sendast þarna á milli herbergja eða hæða, þótt stundum sé nú um lengri veg að fara. Menn eru svona að skrifast á við sjálfan sig oft og tíðum.

En svo er hér fjöldi einstaklinga sem hefur lagt inn umsagnir, fólk úti í samfélaginu, fólk sem er að vinna sína vinnu og tekur sér tíma frá störfum sínum til að senda hingað mjög ítarlegar, langar og greinargóðar umsagnir. En þeim er bara svipt af borðinu. Tugir einstaklinga, þeim er bara svipt af borðinu. Það er ekkert hlustað. Yfir 90% þeirra umsagna eru neikvæðar en það er ekkert hlustað.