149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir ræðuna. Mér þótti athyglisvert að þetta sjónarmið hans sem snýr að því að menn sem fái — ég gef mér að hv. þingmaður sé að vísa til meðferðar nefndarinnar á málinu, að þar hafi menn ekki verið að hlusta eftir þeim röddum sem málið mun snerta hvað mest hvað budduna varðar í rekstrarlegu tilliti, hvort sem þar er um að ræða heimilisbókhald einstaklinga eða rekstur fyrirtækja þar sem raforkunotkun nær einhverju máli sem heildarútgjaldaliður.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Skynjar hann þetta svona sem meginreglu þegar kemur að innleiðingu EES-gerða, að það sé hlustað meira á kerfið en þá sem þurfa að búa við hið breytta umhverfi? Eða telur hann þetta undantekningu í þessu tilviki? Því að það er auðvitað þannig að ef þeir sem helst verða fyrir breyttum reglum upplifa að þingið taki ekki tillit til þeirra sjónarmiða sem koma fram í málum sem þessum dregur það hratt úr vilja manna til að leggja vinnu í slíkar vandaðar umsagnir annars vegar og hins vegar bætir það ekki úr hvað varðar það langtímamarkmið að auka veg og virðingu löggjafarsamkundunnar. Mér þætti áhugavert að heyra sjónarmið þingmannsins gagnvart því hvað þetta varðar.