149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór í stuttri ræðu fyrr í kvöld aðeins yfir fjórða orkupakkann sem heitir því fallega nafni, með leyfi forseta: Clean energy for all Europeans, þ.e. hrein orka fyrir alla Evrópubúa. Í samantekt um innihald þessa pakka undir liðnum, með leyfi forseta, Electricity Market Design, þ.e. hönnun markaðarins eða hvernig sem við skýrum það, segir m.a. í þýðingu, ég er búinn að fá betri þýðingu á þessu en ég var að reyna að koma hér upp úr mér í dag, með leyfi forseta:

„ACER mun hafa yfirumsjón til framtíðar yfir svæðisbundnum einingum og þar með koma í veg fyrir hugsanleg vandamál sem gætu komið upp ef eitthvert ríki fyrir sig færi að stjórna sínum málum sem gæti haft neikvæðar afleiðingar á orkumarkaðinn og orkuneytendur.“

Sé þessi þýðing rétt, hún er í samræmi við það sem ég fór með hér fyrr í kvöld, er full ástæða til þess að horfa á þá fyrirvara sem Norðmenn reyndu að setja, þ.e. þeir myndu áfram stýra því hvort og hvernig þeir leggja rafstrengi, hvernig þeir hleypa orku inn á þessa strengi og hvernig þeir líta þá. Miðað við það sem liggur fyrir varðandi þennan fjórða orkupakka er alveg ljóst að ACER ætlar sér að koma í veg fyrir með öllum hætti að eitthvert ríki fari að stjórna sínum eigin málum með þeim hætti að það komi í veg fyrir virkni markaðarins. Er það það sem við viljum? Ég fæ ekki séð að sá fyrirvari sem við höfum séð hér frá ríkisstjórninni taki á þessu.