149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:11]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Ekki versna þær, verð ég að segja, þær skána.

Nú hefur hv. þingmaður verið í nokkrum ræðum með það þema að fara yfir fyrirvara Noregs. Ég hef verið að dunda mér við að rýna í lögfræðiálit Carls Baudenbachers varðandi það hvernig við Íslendingar ættum helst að snúa okkur í þessu máli. Hann telur það einboðið, sá mæti maður, að ekki sé nokkur leið fyrir okkur Íslendinga að fara til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að fá staðfestingu þar á skilningi okkar. En Norðmenn, sem hafa nokkra reynslu í þessari stjórnsýslu, hafa brugðið á það ráð að reyna að setja fyrirvara við eitthvað sem þeir hafa þegar gert, þ.e. búið er að tengja Noreg við raforkukerfi Evrópu og þeir eru nú þegar hluti af þessum innri markaði. Þetta væri svona eins og við myndum núna vilja setja einhverja aukafyrirvara við, segjum persónuverndarlöggjöfina eða eitthvað svoleiðis.

Er það réttur skilningur hjá mér að þetta sé jafnvel enn lengra seilst en það sem við höfum lagt til hér, að fara hreinlega fyrir sameiginlegu EES-nefndina eins og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kveður á um að gera skuli áður en menn innleiða þegar svo háttar til að menn eru kannski ekki alveg sáttir við það sem verið er að bjóða upp á?