149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er býsna erfitt að gera sér í hugarlund hvað gerir það að verkum að ríkisstjórnin skuli vera svona áfjáð í að láta undan kröfum Evrópusambandsins, hvort sem það er nákvæmlega með þetta svokallaða ferska kjöt og ógerilsneyddu vörurnar eða orkupakkann. Meira að segja er það þannig að þrátt fyrir að ráðherra hafi boðað að mögulega yrði þessu máli frestað fram á haustið, vegna þess að það væri ekkert óeðlilegt með mál sem væri í vinnslu, þá er skyndilega lögð mikil áhersla á að klára það með hraði í gegnum þingið. Engin skýring sem ég kannast við hefur komið á því öllu saman og þá síður hvers vegna á að fara svona hratt í að klára þetta blessaða kjötmál. Þó að það sé vitanlega annað mál held ég að þar þurfi menn að nýta tímann betur til að vera undirbúnir fyrir það sem fylgir í kjölfarið.

Orkumálin eru rétt að byrja. Evrópusambandið mun halda áfram (Forseti hringir.) í þeirri viðleitni sinni að búa til einn sameiginlegan markað.