149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þarna snertir hv. þingmaður mjög athyglisverðan punkt. Það sem fyrir mér vakti með því að segja þessa sögu var að við erum í raunverulegri hættu að þurfa jafnvel að skipta Landsvirkjun upp, skipta gullgæsinni okkar upp, vegna þess að hér á að ríkja samkeppni og hér á að vera samkeppnismarkaður um orku sem við erum að koma á fót undir forystu Vinstri grænna, svo merkilegt sem það nú er.

Það er kannski það sem veldur manni mestum áhyggjum. Þessi ásælni sést á hverjum degi. Talað er um að erlend fyrirtæki vilji reisa vindorkugarða. Það er talað um það á hverjum einasta degi. Talað er um að hér sé búið að gefa út töluvert af rannsóknarleyfum fyrir smávirkjanir sem þurfa ekki að fara í umhverfismat. Ég hef lýst því áður í umræðunni að orkan sem þessi fyrirtæki koma til með að framleiða verður væntanlega ekki á sama verði og orkan sem við framleiðum nú í virkjunum okkar.

Og þá er spurningin: Hver á að kaupa þessa orku og á hvaða verði? Á að setja hana á markað innan lands og hækka þar með orkuverð til almennings og fyrirtækja? Eða sjá þeir fjárfestar sem leggja þarna mikið undir fyrir sér að útleið verði með orku frá Íslandi innan einhverra ára?

Það er kannski það sem maður óttast mest.

Ég hef hins vegar ekki reifað þetta mjög mikið vegna þess að öndvert við það sem margir halda þá stundum við ekki hræðsluáróður. En það er nauðsynlegt að benda á þessar staðreyndir. Það er nauðsynlegt að benda á þær vegna þess að þetta getur raungerst fyrr en varir.