149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:37]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir hans spurningu.

Ég ætla aðeins að klára þetta með reglugerðina. Auðvitað hefur reglugerð útgefin af einum ráðherra í Stjórnarráði Íslands ekkert gildi í Evrópuréttinum til móts við reglugerðir eða tilskipanir sem innleiddar hafa verið á EES-svæðinu með réttum hætti. Hún hefur nánast ekkert gildi. Það er alveg augljóst þannig að ég legg þessa reglugerð bara til hliðar.

Ég ætlaði að halda aðeins áfram með orðalagið í greinargerð með þingsályktunartillögu fyrir þessa innleiðingu en í aðdraganda þess vil ég segja að ef orkutilskipun Evrópusambandsins verður innleidd í íslenskan rétt með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu þá erum við bundin af henni. Þá erum við bundin af þessu regluverki nema við höfum fengið einhverja sérstaka undanþágu sem er þá tilgreind í regluverkinu. Við erum bundin. Þá skiptir engu þó að gefnar séu út einhverjar reglugerðir, menn hittist á fundum, gefi einhverjar yfirlýsingar, átti sig á því að Ísland sé eyja, hafi eitthvert orðalag í greinargerðum með þingsályktunartillögu. Það skiptir ekki nokkru máli.

Eina rétta leiðin, af því hv. þingmaður spyr að því, er auðvitað að innleiða þetta með undanþágum sem eiga sér stað á réttum vettvangi, þ.e. fyrir sameiginlegu EES-nefndinni þar sem við förum fram á undanþágu og okkur yrði veitt hún. Þá erum við undanþegin. Þá er það tilgreint hvað er undanþegið, þessi reglugerð eða þessar greinar. Það er hin lögformlega rétta leið til að undanþiggja. Varðandi alla þá fyrirvara sem hafa verið nefndir hingað til í þessu máli þá ætla ég nú að gefa stjórnarliðinu fullt færi á að benda mér á hvar lagalegi fyrirvarinn er.