149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hann nefnir það að nema á brott þennan möguleika, þessar félagslegu skyldur sem segja má að hafi verið hornsteinn uppbyggingar okkar á raforkukerfi landsins. Ég nefni sem dæmi Hitaveitu Suðurnesja. Það voru sveitarfélögin á Suðurnesjum sem byggðu hana upp, áttu þetta góða fyrirtæki og það kostaði miklar fórnir og mikla vinnu. Tilgangurinn var að færa íbúum á Suðurnesjum, svo ég nefni sem dæmi, ódýra raforku og síðar heitt vatn. Þannig að við horfum þarna á að fallið sé frá þeim þáttum.

En þá er kannski stóra spurningin þessi: Hvers vegna mótmæltu stjórnmálamenn ekki þessu? Hvers vegna voru menn að innleiða þetta möglunarlaust í ljósi þeirra afleiðinga (Forseti hringir.) sem þetta hafði síðan?