149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Virðulegur forseti. Ég vona að yðar hágöfgi hafið ekki misst af síðustu ræðu minni. Ef svo er get ég farið stuttlega yfir innihald hennar án þess þó að rekja það í heild, þó að það sé sannarlega þess virði að fara aftur yfir það í heild. En fyrir tilviljun, þegar ég var að leita að upplýsingum um innleiðingu járnbrautarregluverks Evrópusambandsins og hvernig þeir hefðu ætlað að innleiða það á Íslandi, uppgötvaði ég gríðarlega áhugaverða grein sem skrifuð er í aðdraganda innleiðingar annarrar orkutilskipun Evrópusambandsins þar sem nokkrir stjórnmálamenn, en alveg sérstaklega Björn Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, fara yfir það mál og færa gríðarlega sterk rök fyrir því að ekki megi innleiða þann orkupakka og að okkur beri að sækja um undanþágur, enda eigi hann ekki við hér og hafi ekki æskileg áhrif.

Öll þau rök sem hér eru tínd til eiga við um orkupakka þrjú og reyndar miklu frekar, enda er hann talsvert umfangsmeiri og mun hafa miklu meiri áhrif en það sem kallað var önnur orkutilskipunin.

En ég ætla að grípa aftur niður í þessa grein. Hún er úr Morgunblaðinu frá 2002. Þar segir, með leyfi forseta:

„Árni Steinar Jóhannsson, fulltrúi VG í iðnaðarnefnd Alþingis, segir að staða raforkumála í Evrópu sé allt önnur en hér á landi. „Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði lítum svo á að raforkukerfið hér á landi eigi að vera á félagslegum grunni,“ segir hann. Við lítum á það sem eitt af stoðkerfum landsins.“

Aðspurður kvaðst hann þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að leita eftir undanþágu frá umræddri tilskipun ESB.

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar þingsins, bendir á að ýmsar athugasemdir hafi verið gerðar við frumvarpið, m.a. hafi komið fram athugasemdir frá Landsvirkjun og Rafmagnsveitum ríkisins. „Menn hafa af eðlilegum ástæðum efasemdir um að til virkrar samkeppni geti komið í dreifbýli Íslands,“ útskýrir hann. Hann segir að menn hafi einnig horft til þess að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir mjög flóknu eftirlitskerfi sem menn óttist að verði dýrt í framkvæmd. „Einnig hafa menn efasemdir um það hvernig staðið verði að þeirri jöfnun raforkukostnaðar sem lögð er til,“ segir hann. Efasemdirnar hafi ekki bara komið frá dreifbýlisfólki heldur hafa þær einnig komið frá þéttbýlinu. Einar Oddur leggur því áherslu á að farið verði vel yfir frumvarpið.

„Ég er alls ekki að halda því fram að ýmislegt í frumvarpinu horfi ekki til framfara en við þurfum að gaumgæfa það vel svo að við séum ekki að skjóta okkur í fótinn.““

Herra forseti. Í þessari grein er rætt við stjórnmálamenn úr ólíkum flokkum sem allir telja ástæðu til að varast innleiðingu annarrar orkutilskipunar Evrópusambandsins og færa fyrir því sterk rök. Einu rökin sem nefnd eru á móti eru þau að utanríkisráðherra þess tíma, Valgerður Sverrisdóttir, hafi áhyggjur af því að þurfum að vera, á þessum tíma, búin að innleiða þetta fyrir ákveðna dagsetningu, annars fái menn væntanlega skömm í hattinn frá Evrópusambandinu.

Herra forseti. Þetta minnir óneitanlega á þá stöðu sem við erum í núna. Stjórnmálamenn úr ólíkum flokkum, sem koma úr ólíkum áttum, og raunar miklu fleiri en stjórnmálamenn, vara eindregið við innleiðingu þriðja orkupakkans. En einhvers staðar er ýtt á að menn keyri málið í gegnum þingið, jafnvel að næturlagi.

Og hvaðan skyldi sá þrýstingur koma? Ætli það sé bara ekki úr sömu átt og árið 2002? Við skulum vona að sagan endurtaki sig ekki.