149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:53]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg laukrétt. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Að stökkva út úr lest á fullri ferð stýrir ekki góðri lukku nema kannski í gömlum vestrum, þá lukkaðist mönnum það eftir að hafa rænt lestina. En varðandi ACER og hið yfirþjóðlega vald þá er það alveg ljóst, eftir að hafa lesið í gegnum þennan viðauka, að það er bætt í. Ég fór yfir það hér áðan að ACER muni nú hafa yfirumsjón með framtíðarsvæðisbundnum einingum, eða það sem kallað er upp á enska tungu „regional entities“, og koma þar með í veg fyrir hugsanleg vandamál sem gætu komið upp ef hvert ríki fyrir sig væri að stjórna sínum málum. Þetta er reyndar í fullkomnu samræmi við viðtal fréttaritara Forbes við orkumálastjóra bandalagsins, frá því 5. maí sl. um að einróma samþykki ríkja innan bandalagsins fyrir breytingum sé orðið algerlega úrelt, heldur vilji þeir færa sig yfir í það að einfalt vægi atkvæða ráði úrslitum. Þetta er m.a. vegna þess að ríki eins og Pólland er í dag að þvælast fyrir, stjórna í eigin málum. Það hljómar þannig að það sé eitthvað sem fellur ekkert að stefnu bandalagsins. Það virðist vera þannig að þeir séu alveg óhræddir við að segja þetta eins ólíklega og þetta hljómar þegar maður les þetta upphátt.