149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Þetta er hluti af því sem ég hef sífellt verið að fikra minn nær í ræðuflokki mínum, sem ég hef kallað: Og hvað svo? Áhrifin sem birtast í breyttu umhverfi í kjölfar innleiðingar annars vegar og síðan hins vegar í kjölfar þess að sæstrengur hefur verið lagður.

Áhrifin á fyrirtæki sem eru háð annars vegar orkumagni og hins vegar því að orkukaup séu ekki hátt hlutfall rekstrarútgjalda. Við höfum til að mynda séð skýrslur sem greina ástandið í Noregi eða ástandið sem menn sjá fyrir sér í kjölfar innleiðingar þar á ákveðnum sviðum.

Telur hv. þingmaður að það sé raunveruleg hætta á að umtalsverð hækkun orkukostnaðar geti haft áhrif í þá veru að til að mynda iðnaður, svo ekki sé nú talað um orkufrekur iðnaður, gæti tapað því samkeppnisforskoti sem hann hefur haft á Íslandi í skjóli eða í ljósi hagstæðs raforkuverðs? Og með þeim afleiðingum að eigendur slíks rekstrar, t.d. álveranna, sjái sér ekki hag lengur í því að reka slík slíka starfsemi á Íslandi?

Þekkir þingmaðurinn dæmi þess að eigendur (Forseti hringir.) slíkra iðjuvera loki stórum vinnustöðum, breytist rekstraraðstæður með afgerandi hætti?