149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:41]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Fyrst að síðustu spurningunni. Það er auðvitað þekkt. Ég held að meira að segja að það séu mörg dæmi um að til að mynda álverum hafi verið lokað hér og þar í veröldinni á undanförnum árum.

Í sumum tilvikum reyndar hafa menn lent í að álverum hafi verið lokað eða dregið úr starfsemi þeirra en svo hafi vörn verið snúið í sókn einmitt með því að framleiða meiri orku á samkeppnishæfu verði. Ég nefni sem dæmi Quebeck-fylki í Kanada, sem er með gríðarlega stórar og miklar vatnsaflsvirkjanir.

Íslendingar eru á vissan hátt, og ekki bara á vissan hátt, í rauninni á beinan hátt, í samkeppni við Quebeck og auðvitað miklu fleiri staði um uppbyggingu fyrirtækja og framleiðslu sem reiðir sig á orku á samkeppnishæfu verði og vilja helst umhverfisvæna orku.

Við erum ekki einir um það, Íslendingar, að geta framleitt umhverfisvæna orku á samkeppnishæfu verði.

En þegar menn taka ákvarðanir um hvar skuli fjárfesta, og endurmeta jafnt og þétt hvort halda skuli rekstri áfram, líta þeir til ótal þátta eins og orkukostnaðar, eins og flutningskostnaðar, eins og launakostnaðar o.s.frv.

Þegar allt þetta er tekið saman erum við ekki bara í samkeppni sem hægt er að meta út frá orkuverði, heldur líka í samkeppni sem ræðst af því hversu nálægt mörkuðum fyrirtækin eru staðsett, hvað þarf að borga starfsfólki í laun o.s.frv. T.d. kostar bara brot af því að ráða mann til vinnu í álveri í Kína miðað við það sem það kostar á Íslandi. En þeir brenna hins vegar kolum í Kína til að framleiða rafmagnið (Forseti hringir.) sem fer í framleiðsluna.