149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þekki einmitt mjög mikið af prinsippföstu, traustu sjálfstæðisfólki, líklega mest úr þeim hópi sem í denn var kallað gamla íhaldið. Þetta er heiðarlegt fólk sem trúir enn á gömlu gildi Sjálfstæðisflokksins, gjör rétt, þol ei órétt og stétt með stétt og allt þetta. En ég man ekki betur en að núna í dag, en það kann að vera af því að mér fannst hæstv. utanríkisráðherra svo stuttur í spuna, hafi ég stungið því að honum að það væri góð hugmynd, af því að nú er flokkurinn 90 ára gamall á morgun, að hann gæfi flokknum það í afmælisgjöf að fresta meðferð þessa máls til hausts og fara betur yfir það. Hann tók því fálega. En ég er að vona að þegar hann blandar geði á morgun uppi í Valhöll við þetta góða fólk sem við erum einmitt að ræða hér, yfir kaffibolla og köku, þá fái hann hugsanlega meira beint í æð, ef við getum orðað það þannig, þessar áhyggjur og óánægju sem ég hef orðið var við úr þessum breiða fylgismannahópi Sjálfstæðisflokksins sem þekkir ekki flokkinn sinn fyrir sama flokk og áður var.

Það er dálítið síðan ég hef hitt t.d. æsta stuðningsmenn VG, en ég hlakka til að hitta þá og fara með þeim yfir það hvað gerði Vinstrihreyfinguna – grænt framboð að þessum markaðshyggjuflokki sem vill markaðsvæða orkuauðlindir Íslands bara í einu vetfangi. Það er svo stór viðsnúningur að ég er eiginlega enn þá spenntari fyrir að fá að heyra af því en af þessu, þótt ég lasti það ekki að tala við það ágæta Sjálfstæðisflokksfólk sem ég hef hitt og hefur lýst yfir áhyggjum (Forseti hringir.) sínum og vonbrigðum með flokkinn sinn.