149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:58]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég spyr er að það er alveg skýrt tekið fram hvernig gerðir skuli innleiddar. Í 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið segir, með leyfi forseta:

„Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:

a) gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;

b) gerð sem samsvarar tilskipun EBE“ — sem við erum með hér, tilskipun 72/2009, 73/2009 — „skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.“

Það er alveg skýrt form á því hvernig hlutirnir eru gerðir þegar reglugerðir og lög og tilskipanir eru innleiddar í landsrétt og hvernig þeir öðlast gildi.

Það sem ég hef í huga er: Hvernig skyldi skjalið hafa litið út þegar við fengum undanþágu varðandi fiskveiðistjórnun og veiðar? Hvernig skyldum við hafa gert þetta þá? Ætti þetta ekki að líta út eins og þá var?