149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:08]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, það gæti hjálpað að grípa niður í álitsgerð þeirra félaga, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, eins og svo oft áður. Á bls. 26 segir, með leyfi forseta:

„Fyrst ber að hafa hugfast að íslenska stjómarskráin er með öllu þögul um heimildir til framsals ríkisvalds til alþjóðastofnana. Að þessu leyti greinir hún sig frá stjórnarskrám flestra annarra Evrópuríkja. Einkum skal hér bent á stjórnskipun og aðild Noregs að EES-samningnum sem samþykkt var á grundvelli sérstaks stjórnarskrárákvæðis, sem er að finna í 115. gr. norsku stjórnarskrárinnar. Þar kemur fram í 1. mgr. að til að tryggja alþjóðafrið og öryggi o.fl. geti norska Stórþingið samþykkt með 3/4 hluta atkvæða …“ Þ.e. með auknum meiri hluta atkvæða, ekki bara með einföldum meiri hluta.

Reyndar er í öðrum greinum haldið áfram að útskýra að þarna sé verið að tala um það sem Norðmenn kalla „lite inngripende“, eða lítilvæg inngrip, eða eitthvað sem hefur minni háttar áhrif á stjórnskipun í landinu. Á þeim forsendum telja Norðmenn að þeir hafi aflétt þessum stjórnskipulega fyrirvara en setja samt sem áður þessa átta fyrirvara. Það voru mjög harðar deilur um þetta mál í Noregi, svo að það komi fram, og það hefur svo sem komið fram, en nú er málið fyrir stjórnskipunardómstól.

Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að færi svo eins og ég lýsti áðan hafa Norðmenn misst af því tækifæri að leiðrétta það sem aflaga kann að hafa farið í innleiðingu hjá þeim. Og talandi um hollustuskyldu þá gætu Íslendingar haft hollustuskyldu, sé hún fyrir hendi, gagnvart Noregi til að bíða og sjá hver niðurstaða stjórnlagadómstóls í Noregi verður.