149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þetta var svo sannarlega einkennileg viðvera hér hæstv. ráðherra. Það fer ekkert á milli mála. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að hann hafði ekkert nýtt fram að færa. Maður hefði nú talið það í ljósi þessarar stöðu að hér höfum við rætt þetta mál, Miðflokksmenn, alla þessa viku, á næturfundum og verið mjög uppbyggileg umræða og margt komið í ljós sem er miður að aðrir þingmenn skyldu hafa misst af vegna þess að þeir voru sofandi heima hjá sér. Þá kemur manni verulega á óvart að hann skuli ekki bregðast við því. Ástæðan kann vera sú að hann getur engu svarað með þetta vegna þess að hann er hálf ráðþrota. Hann telur upp sömu frasana aftur og aftur. Les hér upp úr tilbúnum skjölum sem liggja fyrir, sem sýnir að hann hefur ekkert nýtt fram að færa þrátt fyrir að við höfum bent á að það er margt sem þarf að ræða, eins og t.d. bara niðurgreiðslu til húshitunar.

Ég spurði hæstv. ráðherra að þessu sérstaklega hvort ekki megi lesa það út úr tilskipun 72/2009 sem er í þessum pakka, að það geti verið hætta á því að óheimilt verði að greiða rafmagn niður til húshitunar. Engin svör önnur en þau að við höldum áfram að greiða niður húshitun. En hvað ef við verðum kærð? Hann svaraði því ekki.