149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni mjög athyglisverða ræðu og vert er að fara nánar í þetta mál.

Hv. þingmaður nefndi samninga við álfyrirtækin. Í kjördæmi hans er mikilvægt fyrirtæki á sviði áliðnaðar og hefur, má segja, haft mjög jákvæð áhrif á atvinnuþróun og byggð á Austurlandi, og ekki var vanþörf á vegna þessa að því miður voru teikn á lofti um að íbúum færi fækkandi á því svæði. Sá uppgangur sem var þar um tíma var á niðurleið, en fyrirtækið gerbreytti stöðunni á Austurlandi og er mikilvægt fyrirtæki á sviði áliðnaðar.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í er eitt af því sem hefur ekki verið skoðað nægilega vel í tengslum við þetta mál, að mínu mati, og það eru áhrifin á samfélagið, þ.e. áhrif innleiðingar orkupakkans á samfélagið í heild sinni. Við höfum rætt áhrif á heimilin í landinu og fyrirtækin, þ.e. smærri fyrirtækin. Við höfum bent á raforkuverðið. En þarna fyrir austan er komið stórt fyrirtæki á þessu sviði og fleiri eru í áliðnaði, eins og við þekkjum.

Telur hv. þingmaður að veruleg hætta sé á því að í kjölfar innleiðingar, og þegar sæstrengur verður kominn, að þau fyrirtæki hætti jafnvel bara starfsemi? Þá erum við náttúrlega að horfa á eftir hundruðum starfa og verulegum efnahagslegum áhrifum ef þessir samningar yrðu endurskoðaðir, sem gæti síðan leitt til þess að fyrirtækin ákveða að fara.