149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

fjórði orkupakkinn og sæstrengur.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að vekja máls á þessu hér í pontu Alþingis. Svo ég ræði fyrst um fjórða orkupakkann, sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni, er það svo að Alþingi Íslendinga og stjórnvöld hafa ferli, sem hv. þingmaður þekkir vel frá sinni löngu tíð á Alþingi, í því hvernig farið er með innleiðingar á EES-gerðum. Því er fullkomlega eðlilegt að við fjórða orkupakkann verði fylgt því ferli sem við höfum komið okkur saman um, að hann sé tekinn til umfjöllunar bæði hjá utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd þingsins þegar að því kemur í ferlinu, og þá sé einmitt gerð grein fyrir því ef Ísland vill gera einhverja fyrirvara við þennan fjórða orkupakka innan sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég held að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um að það sé eðlilegt ferli.

Síðan reifar hv. þingmaður aðeins hugmyndir breska fyrirtækisins Atlantic Superconnection, sem við höfum auðvitað heyrt nefnt, sem hefur um nokkurra ára skeið haft til skoðunar þá hugmynd að leggja hingað sæstreng. Hv. þingmaður þekkir það að sjálfsögðu vel í ljósi þess að á árunum 2015–2016, þegar hann var forsætisráðherra, var starfandi verkefnisstjórn sæstrengs og þá áttu sér stað könnunarviðræður milli íslenskra og breskra stjórnvalda.

Hv. þingmaður vísar líka í þau lögfræðiálit sem liggja fyrir um þriðja orkupakkann. Allir lögfræðingar eru sammála um að engin skylda verði leidd af orkupakkanum um að heimila lagningu sæstrengs milli Íslands og annars EES-ríkis. Það er ekki svo að þau ákvæði sem snúast um þetta mál taki hér gildi nema slíkur sæstrengur verði lagður og hann verður ekki lagður nema Alþingi Íslendinga kjósi svo. Raunar heyrði ég það haft eftir einum þeirra sem berst gegn þriðja orkupakkanum að Alþingi Íslendinga væri ekki treystandi fyrir slíkum ákvörðunum og þá þykir mér illa komið fyrir fullveldinu (Forseti hringir.) ef þeir sem berjast gegn orkupakkanum telja að þessari stofnun sé ekki treystandi, lýðræðislega kjörnu þjóðþingi.