149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Miðað við þá hagsmuni sem eru undir og miðað við þær væntingar sem þessi fjárfestir virðist hafa og miðað við það að hann sé búinn að fullfjármagna sitt verkefni, þá er ekki vafi í mínum huga að hann mun leita réttar síns, alveg eins og nokkrir litlir heildsalar á Íslandi leituðu réttar síns gagnvart íslenska ríkinu til að flytja inn ófrosið kjöt, sem að sjálfsögðu er með ólíkindum að mönnum skuli detta í hug, verandi með þessa stöðu sem Ísland hefur sem landbúnaðarland.

Ég ætla að leyfa mér að segja, án þess að hafa lesið mjög mikið til um þennan fjárfesti, að ég skil ágætlega að maðurinn skuli hafa metnað til þess að fara inn á þennan vettvang þar sem það er alveg ljóst að samruni eða hvað á að kalla það, þessi sameiginlegi orkumarkaður sem Evrópusambandið er að búa til, mun væntanlega verða mjög ábatasamur þegar fram líða stundir, ekki síst fyrir þá sem ráða munu yfir einhverri umhverfisvænni endurnýjanlegri orku. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Þar af leiðandi má segja að maður beri ákveðna virðingu fyrir því að maðurinn skuli vera svona framsýnn að sjá þetta, en að sama skapi finnst mér ekki koma til greina að liðka til á einhvern hátt til að draumur hans verði að veruleika.

Ég óttast það mjög, hv. þingmaður, að það sem við erum að gera nú með orkupakka þrjú og mögulega fjögur, sé einmitt að taka skrefið í þá átt að liðka til. Gefum okkur það að bresk stjórnvöld veiti þessu ágæta fyrirtæki leyfi. Við vitum að þetta fyrirtæki er með umboðsaðila á Íslandi sem vinnur fyrir það. Hvernig halda menn að þrýstingurinn verði þá á íslensk stjórnvöld að leyfa kapal, leyfa streng, að standa að minnsta kosti ekki í vegi fyrir því? Og hver segir að það muni ekki eitthvað fleira verða hengt á þá spýtu, aðrir samningar sem Ísland þarf að gera við bresk stjórnvöld?