149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Í lok svars síns kom hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson einmitt inn á það sem ég ætlaði að spyrja hann út í næst: Hvaða viðbótarþrýstings verður að vænta eftir að þriðji orkupakkinn er innleiddur í ljósi reynslunnar og sérstaklega með tilliti til ekki stærra máls út frá sjónarmiði Evrópusambandsins en þetta kjötmál svokallaða. Þar brugðust íslensk stjórnvöld við á endanum með því að leggja fram frumvarp sem bíður afgreiðslu í þinginu, sem gerir ráð fyrir því að við eigum einfaldlega að fallast á túlkun ESA og Evrópusambandsins þrátt fyrir að við teljum það ranga niðurstöðu, þrátt fyrir að við teljum okkur hafa haft undanþágur hvað þessi mál varðar. En þá kemur ríkisstjórnin hér með frumvarp og bendir okkur á að íslenska ríkið hafi verið dæmt til að greiða himinháar sektir til, eins og hv. þingmaður nefndi, einhvers hóps heildsala sem tók upp á því hjá sjálfum sér að sækja bætur vegna samningsbrots.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að umræðan yrði ef við hefðum verið dæmd, íslenska ríkið, til að greiða sektir vegna samningsbrota í orkumálum, vegna samningsbrota við tengingu landsins með sæstreng vegna þriðja orkupakkans?

Og orkumálin vel að merkja, frú forseti, eru margfalt stærra forgangsverkefni hjá Evrópusambandinu en það að fá að flytja meira af ófrosnu hráu kjöti til Íslands. Við getum því rétt ímyndað okkur hver þrýstingurinn yrði og hvernig íslensk stjórnvöld, sem ekki (Forseti hringir.) þora að standa í vegi fyrir innleiðingunni núna, myndu bregðast við.